Bragi Ásgeirsson

Bragi Ásgeirsson (fæddur 1931) er grafíklistamaður, listmálari og myndlistakennari. Þar að auki var hann um árabil gagnrýnandi á Morgunblaðinu. Bragi fékk riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“

Bragi nam við Handíða- og myndlistarskólann á árunum 1947 til 1950. Að náminu loknu hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Listaháskólinn í Kaupmannahöfn frá 1950 til 1952 og frá 1955 til 1956. Frá 1952 til 1953 stundaði Bragi nám við Listaháskólann í Osló í Noregi og við Listiðnaðarskólinn. Hann dvaldi í Róm og Flórens frá 1953 til 1954 og var meðlimur í Associazione Artistica Internazionale í Róm. Bragi nam við Listaháskólann í München í Þýskalandi frá 1958 til 1960. Hann hefur farið í námsferðir víða í Evrópu, til Bandaríkjanna, Kananda, Kína og Japans.

Bragi kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1956 til 1996. Upphaflega kenndi hann grafík og var að því leyti brautryðjandi á Íslandi. Hann var listrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið frá 1966. Bagi hefur hlotið dvalar- og námsstyrki frá öllum Norðurlöndunum, m.a. Edvard Munch styrkinn árið 1977. Hann var styrkþegi DAAD Sambandslýðveldisins í Vestur-Þýskalands frá 1958 til 1960. Bragi hlaut starfstyrk íslenska ríkisins 1978-1979 og var borgalistamaður Reykjavíkur 1981-1988. Hann hlaut medalíu Eystrasaltsvikunnar/Pablo Neruda friðarpeninginn á tvíæringnum í Rostock 1978. Bragi hefur verið heiðursfélagi í félaginu Íslenzk grafík frá 1983.

Fyrsta einkasýning Braga var í Listamannaskálanum við Kirkjustræti árið 1955. Hann sýndi þar einnig árin 1960 og 1966. Bragi hefur gert veggskreytingar í Hrafnistu og Þelamerkurskóla og myndlýst kvæðið Áfangar eftir Jón Helgason. Hann hefur haldið fimm einkasýningar í Norræna húsinu og fjölda minni sýninga í Reykjavík og úti á landi. Hann hélt einkasýningu í Kaupmannahöfn árið 1956. Bragi hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og um öll Norðurlönd og víðs vegar annars staðar í Evrópu, í tíu fylkjum Bandaríkjanna, í Rússlandi, Japan og Kína. Hann tók þrisvar þátt í tvíæringnum í Rostock og einu sinni Evróputvíæringnum (1988). Hann hélt sýningu á 366 myndverkum, Heimur augans, í öllum sölum Kjarvalsstaða 1980.

Bragi sat í sýningarnefnd Félags íslenzkra myndlistarmanna frá 1969 til 1972 og var formaður hennar í tvö ár, frá 1971 til 1973. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd varðandi Biennalinn í Rostock frá 1967 til 1981 og var heiðursgestur 1981. Honum var veitt heiðursskjal fyrir grafík í Kraká í Póllandi árið 1968. Hann hlaut bjartsýnisverðlaun Brøste árið 1982.

Myndir eftir Braga eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns ASÍ, Listasafns Kópavogs, Listasafns Borgarness, Listasafns Selfoss, Listasafns Siglufjarðar, Listasafns Colby College í Maine og Norður-Þýska listasafnins, Listasafns Rostock, Listasafns Alþingis, og eru í eigu margra banka, opinberra stofnanna og einkasafna á Íslandi og víðar.

Heimasíða Braga