Haukur Dór

Haukur Dór er fæddur í Reykjavík 1940 og nam við Edinburgh College of Art og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Síðar stundaði hann nám við Visual Art Center í Maryland, USA. Hann hélt fyrstu einkasýningu sína á myndlist 1962 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum myndlistarmanna og leirlistamanna víða um lönd. Haukur Dór hefur unnið að leirlist og myndlist á Íslandi, í Danmörku, Spáni og Bandaríkjunum. Í dag helgar hann sig málaralistinni alfarið. Verk Hauks Dórs er að finna í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og Hönnunarsafni Íslands og að auki í nokkrum öðrum listastofnunum og einkasöfnum.

„ Í málaralistinni á sér stað eilíf hringrás, þar sem sömu markmiðin verða ofan á með reglulegu millibili. Tvenn markmið eru þar lífseigust. Annars vegar eru þeir listamenn sem leita jafnvægis, samræmis og einfaldleika, hins vegar þeir sem vilja gera málverk sín að opnum vettvangi fyrir allar kenndir sem bærast þeim í brjósti.
Meðal þeirra síðarnefndu er tvímælalaust Haukur Dór, leirlistamaður, listateiknari og listmálari. Af fádæma harðfylgi hefur hann í áraraðir stundað málaralist sín, þrátt fyrir ágjafir og tímabundnar vinsældir nýrra listgreina.
Að stofni er myndlist Hauks Dór angi á miði þeirrar expressjónísku myndlistar sem er ein af meginstraumum myndlistar á 20stu öld, til komin fyrir brýna þörf. Í tímans rás tekur þessi myndlist svo inn á sig frumstæða kynngi afrískrar listar, ímyndanirnar sem súrrealisminn leysti úr læðingi og tilvistarlegar ígrundanir eftirstríðsmyndlistarinnar í Bandaríkjunum. Nánustu listrænu bandamenn Hauks Dór í tíma eru sennilega COBRA-mennirnir dönsku og hollensku, sem vildu endurvekja hið ævintýralega í myndlistinni.
Haukur Dór gerir eingöngu átakamyndir, ýmist harmrænar eða gáskafullar, þar sem takast á fulltrúar mannlegra ástríðna, vættir úr goðsögum og landslagi, að ógleymdum óvættum sem minna okkur á myrk öfl tilverunnar. Málverk hans eru drifin áfram af brýnni þörf sem lætur engan ósnortinn. ”

Aðalsteinn Ingólfsson