Jón Engilberts

Jón Engilberts (1908-1972) var fæddur í Reykjavík árið 1908. Hann gekk í einkaskóla Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) í Reykjavík 1921-22 og stundaði nám við Samvinnuskólann 1925-26. Jón fór til Kaupmannahafnar árið 1927 og stundaði teikninám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn. Þaðan fór hann í Konunglega listakademíið frá 1928-1931 og fór svo til Óslóar, í Statens Kunstakademi  frá 1931-33 og var þar undir handleiðslu Axel Revold. Hann bjó í Reykjavík 1933-1934 og fluttist aftur til Kaupmannahafnar þar sem hann bjó árin 1934-1940, er hann fluttist alkominn heim til Íslands. Á árunum 1934-40 tók hann virkan þátt í dönsku listalífi og var m.a. kjörinn félagi í sýningarhópnum Kammeraterne 1936 og í Grafisk Kunstnersamfund.
Jón Engilberts var einn þeirra listamanna sem telst til annarrar kynslóðar myndlistarmanna, og var í flokki þeirra sem sneru frá landslagsmálverkinu og hóf að fást við raunsæi og hversdagsleika svo sem sjá má í myndum hans af sjávarþorpum og íbúum þeirra. Elstu verk hans bera með sér áhrif frá þýska expressjónismanum. Eftir að Jón sneri alkominn til Íslands árið 1940, varð hann mikilvægur í íslenska myndlistarsamfélaginu, en hann kenndi mikið og var brautryðjandi í grafíklist hérlendis og vann mikið við myndskreytingar. Hann vann einnig að réttindamálum myndlistarmanna. Árið 1965 hóf hann að mála stórar myndir með þykkum olíulögum í abstrakt expressjónískum stíl, þar sem fléttaðist saman íslensk náttúra og goðafræði. Jón lést í Reykjavík árið 1972.