Jón Stefánsson

Jón Stefánsson (1881-1962) var einn af frumherjunum í íslenskri myndlist. Hann málaði landslagsmyndir, portrett - eða myndir af fólki - og uppstillingar.

Hann hugsaði aldrei um það þegar hann var að alast upp á Sauðárkróki að það gæti verið gaman að verða listmálari. Hann teiknaði að vísu dálítið þegar hann var krakki og unglingur en það var eins og hvert annað föndur. Svo sagði hann að minnsta kosti sjálfur.

Jón fór til Kaupmannahafnar aldamótaárið 1900 til að læra mannvirkjafræði því að hann langaði til að teikna brýr yfir straumþungar ár og móta bryggjur og fleira af því tagi. Mamma hans sagði honum áður en hann fór að það gæti komið sér vel í slíku starfi að læra líka að teikna. Og hann fór að ráðum hennar.

Jón fékk tilsögn í teikningu og sótti líka söfn í stórborginni. Þannig kynntist hann verkum meistara myndlistarinnar. Eftir þriggja ára nám sagði hann svo skilið við mannvirkjafræðina og fór að læra að mála. Hann var fyrst í listaskóla í Kaupmannahöfn og síðar í París.

Þegar hann málaði mynd af landslagi reyndi hann ekki að líkja nákvæmlega eftir því sem hann sá. Hann leitaðist við að sýna þau áhrif sem landslagið hafði á hann. Hann lét smáatriði eiga sig en dró fram það sem honum þótti skipta mestu máli. Hann tengdi saman formin í náttúrunni svo þau mynduðu eina heild og tefldi saman andstæðum, notaði ljósa og dökka litfleti, heita og kalda.

Jón var svo vandvirkur og gerði svo miklar kröfur til sín að hann lét aldrei fara frá sér mynd nema hann væri alveg ánægður með hana. Þess vegna eru fyrstu myndirnar sem hann málaði ekki til. Honum fannst hann geta gert svo miklu betur að hann eyðilagði þær.

Hann bjó mikinn hluta ævinnar erlendis en þótti alltaf gott að koma til Íslands. Honum þótti birtan hér heima alveg einstök.

"Á sumrin er bjartara á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar," sagði hann, "og þegar maður kemur heim á vorin liggur við að maður fái ofbirtu í augun. En það er einmitt þessi mikla birta sem gerir landið svo dýrlegt".(landogsaga.is)