Karl Kvaran

Karl Kvaran (1924-1989)  fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1924. Hann nam myndlist í einkaskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar 1939-1940 og við einkaskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar 1941-1942. Frá 1942-1945 lærði hann við Handíðaskólann í Reykjavík og fór svo til Danmerkur og var við nám við Konunglega listakademíið í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Rostrup Bøyesen árin 1945-1948. Í verkum Karls frá 1942-1952 gætir mikilla áhrifa frá málverki síðkúbismans, þar sem ströng formræn uppbygging og þykkt olíunnar skapa efnisþung málverk. Það var um það bil árið 1951 sem Karl snerist frá hlutbundinni listsköpun til óhlutbundins myndmáls, geómetrískrar abstraktsjónar og er hann einn helsti fulltrúi strangflatarmálverksins í íslenskri myndlist og hélt lengst allra málara sinnar kynslóðar tryggð við það tjáningarform. Öll dýpt og fjarvídd myndarinnar var útilokuð og tvívíður myndflöturinn undirstrikaður með notkun á einföldum formum og litum.

Frá 1958 til 1970 vann Karl mest að stórum gvass- og olíumyndum ásamt blekteikningum. Meiri mýkt tók að þróast í meðförum hans við formið og í stað beinna lína fór áherslan í átt til meiri hrynjandi, einkum í bogadregnum línum og hringformum og samspili þeirra. Eftir 1970 jók Karl stærðir olíumynda sinna og stöðugum formum var skipt út fyrir hreyfingu formsins.  Litanotkun jókst, hann fór að nota hreinar kröftugar litasamsetningar, tilbreytingar við rauðan lit, gulan og bláan urðu allsráðandi ásamt svörtum og hvítum. Þessi þróun náði hámarki í kringum 1979 þegar myndirnar urðu stórar, hreinar í formi, litmiklar og víðáttumiklar innan myndflatarins. Karl Kvaran lést í Reykjavík árið 1989.