Karólína Lárusdóttir

Karólína Lárusdóttir er meðal þeirra fjölmörgu íslensku myndlistarmanna sem hafa öðlast meiri frama meðal erlendra þjóða en hér heima. Hún menntaðist í Bretlandi, m.a. í Ruskin-listaskólanum í Oxford, er mótuð af meginstraumum breskrar myndlistarhefðar og þar hefur orðstír hennar vaxið ár frá ári. En myndheimur hennar er íslenskur; myndefni sitt sækir hún ekki síst í æskuminningar sínar, úr þeim hefur hún skapað það sem breski listamaðurinn Harry Eccleston kallaði „veröldina hennar Karólínu“ og er nú þekkt víða um heim.