Tolli

Tolla finnst að allt sem máli skipti gerist í náttúrunni og að það hafi síðan áhrif á ásýnd náttúrunnar. Hvað hann sjálfan varðar, þá eins og skipti engu máli hversu oft hann leggur til atlögu við fjarlæg fjöll, hvort sem er í Kákasus, á Grænlands köldu klettum eða í himinhæðum Nepals, þá er eins og hann sé ekki fullkomlega í essinu sínu nema á einum stað á jörðinni -nefnilega íslensku hálendi.

Þegar horft er til elstu málverka hans, sem yfirleitt innihalda margar tilvísanir í sögu Íslands, er kjölfesta þeirra ævinlega íslenskt landslag, hvort sem er samsett, uppdiktað eða raunverulegt. Þá voru þessar landslagsmyndir Tolla líka áberandi harðhnjósku-og drungalegar, í anda þeirrar gagnrýni á neysluhyggju níunda áratugarins sem tíðkaðist meðal íslenskra listamanna; og kölluðust þannig á við íslenska landslagsmálverkið á kreppuárunum.

Í dag er engan drunga að finna í landslagsmyndum Tolla. Að vísu er stundum þungt yfir þeim, þykkir skýjabólstrar leggjast yfir fjöll og dali, en þá er í þeim angurværð eða eftirsjá fremur en drungi, auk þess sem blossa upp í þeim bjartir og sjóðheitir litir sem slá á allt hugarvíl sem kann að vakna við skoðun þeirra.

Helsti munurinn á gömlu og nýju landslagsmyndum Tolla liggur í afstöðu hans til birtunnar. Á árum áður var eins og hann liti fyrst og fremst á landslagið sem misjafnlega áþreifanlegt og eftirgefanlegt efni, materia. Birtan mætti afgangi, ef svo má segja; hún var tæki til að hnykkja á þrívídd og efnisþáttum landslagsins.

Í dag er birtan, og þá á ég við einstök birtuskilyrði á Íslandi allt árið um kring, hrygglengjan í landslagsmálverkum Tolla. Fyrir tilstilli birtunnar er stundum eins og fjöllin í myndum Tolla leysist upp eða renni saman með dularfullum hætti, það kviknar í jöklunum, hafið molnar niður í marglit mynstur, mýrarfenin og svartur sandurinn og melarnir gera skyndilega uppskátt um fjölda smágerðra og litríkra plantna sem enginn hefði trúað að gætu þrifist á þessum óblíðu landsvæðum. Litskrúðið kemur óinnvígðum sjálfsagt í opna skjöldu, en sannleikurinn er sá að það er fyrir hendi á þessum slóðum, jafnvel þótt tekið sé tillit til skáldaleyfis málarans.

Þrátt fyrir litskrúð þessara mynda og ljóðrænan innileika þeirra, en hvorttveggja má að hluta til rekja til fullþroska og lífshamingju miðaldra listamanns, þá er langt því frá að Tolli horfi framhjá helstu eðlisþáttum íslenskrar náttúru. Í hans augum er hún ævinlega hættuleg, torfær og miskunnarlaus þeim sem ekki taka hana alvarlega. Í myndum hans gnæfa yfir okkur ókleyfir hamrar og í námunda við þá eru kannski hvítfyssandi jökulár sem enginn skyldi vaða, yfir hausamótum okkar eru dauðadökkir skýjabólstrar sem gera sig líklega til að gegnumvæta allar flíkur og bæta svo um betur með ískaldri slyddu. Loks eru það endalausar skrunurnar sem liggja niður eftir fjöllum og örþreyta hvern þann sem leggur til atlögu við þær. Þessar skrunur eru orðnar eins konar leiðarstef í landslagsmálverkum Tolla og er það vel við hæfi.

Þessi verk Tolla eru mannlaus, en þau innihalda margar tilvísanir í þær kynslóðir Íslendinga sem farið hafa hallloka fyrir þeirri óblíðu náttúru sem hér hefur verið lýst, í húsarústir sem eitt sinn voru reisuleg hús og litla fjölskyldugrafreiti lengst úti við endimörk hins byggilega heims.

Aðalsteinn Ingólfsson skrifar um Tolla

10647180_10152927569589679_329114369778331114_n

Myndverk eftir Tolla

[Best_Wordpress_Gallery id="1" gal_title="Select Gallery"]