Við seljum myndverk eftir þessa listamenn

Valgarður útskrifaðist úr Myndlista – og handíðarskóla Íslands vorið 1979. Árin 1979- 1981 var hann við nám í Empire State College í New York í Bandaríkunum.

Valgarður hefur haldið fjölda einkasýninga m.a. á Nýlistasafninu (1982), á Mokka kaffi í Reykjavík (1983), í Listasalnum Nýhöfn (1988 og 1991), í Gallery Boj í Stokkhólmi í Svíþjóð (1989), í Bennett Galleries Tennessee í Bandaríkjunum (1993 og 1995), í Din Institut í Berlín í Þýskalandi (1994), á Sjónarhóli (1997) og í Listasafni ASÍ (1999).

Hann hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga m.a. í Norræna húsinu (1983), Ungir myndlistarmenn á Kjarvalsstöðum (1983), KUKS í Copenhagen Town Hall í Kaupmannahöfn í Danmörku (1984), Listasafn Íslands (1984), Kjarvalsstaðir (1987 og 1988), 7 málarar í Listaskálanum í Hveragerði (1997) List í orkustöðvum Landsvirkjun – Ljósafoss Selfoss (2000).Valgarður vinnur olíumyndir á striga sem og vatnslitamyndir.

Hann saumar gjarnan í myndirnar sínar og hefur það hlotið mikla athygli og þykir sérstakt.

Sigurbjörn Jónsson (f. 1958) nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978–1982.  Að því búnu fór hann til New York, fyrst í Parsons School of Design 1984–1986, þaðan sem hann lauk MFA gráðu í málun, og síðan í New York Studio School of Drawing, Painting and Sculpture 1986–1987.  Af helstu einkasýningum Sigurbjörns má nefna: University Press Books í New York 1988, Nýhöfn í Reykjavík 1990 og 1992, Gallerí Borg í Reykjavík 1993 og 1994, Listhúsið Þing á Akureyri 1994, Gerðarsafn í Kópavogi 1996, Unibank Gallery í New York 1999 og Hafnarborg í Hafnarfirði árið 2001.  Þar að auki hefur Sigurbjörn árlega haldið vinnustofu-sýningar í Reykjavík frá 1996. Sigurbjörn býr og starfar í Reykjavík og New York.

Hafsteinn Austmann fæddist á Ljótsstöðum í Vopnafirði 19. júlí 1934.  Strax í gagnfræðaskóla var afráðið hvert skyldi stefnt.  Árið 1951 innritast hann í Myndlistarskólann í Reykjavík og á árunum 1952-54 stundaði hann síðan nám í Handíða- og myndlistaskólanum.  Hleypti hann þá heimdraganum og innritaðist í Academi de la Grande-Chaumiér í París, þar sem hann stundaði framhaldsnám í einn vetur.  Á þessum tíma var Nína Tryggvadóttir þegar orðin þekktur listamaður í París.  Hún sýndi hinum unga landa sínum vinsemd og áhuga.  Það var fyrir hennar tilstilli að Hafsteini var boðið að sýna með hinum virta sýningarhóp Realitiés Nouvelles í París vorið 1955.  Hafsteinn hafði kynnst hinni geometrísku absraktlist í París og tileinkaði sér nú þá liststefnu.  Í stað þess að tryggja sig frekar í sessi meðal kollega í París heldur Hafsteinn aftur heim til Íslands.

Fyrstu sjálfstæðu sýninguna sína hér á landi opnar Hafsteinn svo í Listamannaskálanum árið 1956.  Á sýningunni voru 70 verk unnin í margvísleg efni; olíumyndir, vatnslitamyndir og guachemyndir, auk verka unnum í tré.  Þessi fyrsta sýning Hafsteins vakti mikla athygli og fékk lofsamlega dóma.  Hjörleifur Sigurðsson skrifaði m.a. um þá sýningu: „Þótt Hafsteinn Austmann hafi ekki málað lengi, kveður hann sér hljóðs á þann hátt, að menn hljóta að leggja við hlustirnar.  Af eldri myndum varð fátt ráðið um hæfileika hans en nýju olíumálverkin taka af allan vafa.  Hér er gott málaraefni á ferð.  Einkum virðist litakenndin upprunaleg, eins og raunar hjá flestum íslenskum málurum sem einhver töggur er í“.

Á þessum árum vann Hafsteinn jöfnum höndum með olíulitum og vatnslitum, en eftir sína aðra sjálfstæðu sýningu í Listamannaskálanum 1958 tók hann til við að mála eingöngu með vatnslitum.  Afrakstur þeirrar vinnu sýndi hann svo í Bogasalnum vorið 1960.  Hafsteinn hafði nú þróast frá dökkum og þungum flatarmálsmyndum, sem komu fram á fyrstu sýningu hans, yfir í léttar ljóðrænar afstraktmyndir.  Sýningin vakti mikla athygli, sérílagi þar sem hér var á ferðinni ein fyrsta sýning hér á landi þar sem eingöngu voru sýndar vatnslitamyndir.  Myndirnar voru skemmtilega ólíkar en mynduðu heildstæða sýningu.

Á árinu 1965 fór Hafsteinn í náms- og skoðunarferðir víða um Evrópu.  Hann dvaldi um nokkurra mánaða skeið í Róm og heimsótti auk þess París, London, Amsterdam, Kaupmannahöfn og Stokkhólm.  Áhrif og afsprengi þessarar ferðar mátti sjá á sýningu hans í Unuhúsi haustið 1966 — verkin voru nú rómantískari og formin frjálslegri.  Samfara húsbyggingu og nýrri vinnustofu tekur nú við tímabil mikillar tilraunastarfsemi, ýmis ný efni eru notuð, en viðfangsefnið að öðru leyti hið samana.  Á árunum 1968-69 dvaldi hann í tæpt ár í Árósum í Danmörku, málaði mikið og sýndi með sýningarhópnum „Guirlanden“.  Næstu sýningu hér heima hélt hann á Kjarvalsstöðum vorið 1971.  Þar kom hann fram þróttmeiri og djarfari en fyrr og mun léttara var yfir verkum hans. Svört form og línur byggja nú upp myndir hans og túlkun hans er persónulegri.

Hafsteinn hefur undanfarna áratugi unnið jöfnum höndum með vatnslitum, acryllitum og olíulitum.  Hann hefur frá sínum fyrstu kynnum af afstraktlistinni haldið tryggð við hana, en hleypur ekki úr einum stíl í annan. Hann er átakamaður í list sinni og litameðferðin er hans sterka einkenni.  Hann fer sér hægt og vinnur vel úr efniviðnum og ræður nú yfir meiri tækni en flestir okkar afstraktmálara.  Hafsteinn er í stöðugri framþróun. Hann er trúr list sinni.

Þegar horft er til elstu málverka hans, sem yfirleitt innihalda margar tilvísanir í sögu Íslands, er kjölfesta þeirra ævinlega íslenskt landslag, hvort sem er samsett, uppdiktað eða raunverulegt. Þá voru þessar landslagsmyndir Tolla líka áberandi harðhnjósku-og drungalegar, í anda þeirrar gagnrýni á neysluhyggju níunda áratugarins sem tíðkaðist meðal íslenskra listamanna; og kölluðust þannig á við íslenska landslagsmálverkið á kreppuárunum.

Í dag er engan drunga að finna í landslagsmyndum Tolla. Að vísu er stundum þungt yfir þeim, þykkir skýjabólstrar leggjast yfir fjöll og dali, en þá er í þeim angurværð eða eftirsjá fremur en drungi, auk þess sem blossa upp í þeim bjartir og sjóðheitir litir sem slá á allt hugarvíl sem kann að vakna við skoðun þeirra.

Helsti munurinn á gömlu og nýju landslagsmyndum Tolla liggur í afstöðu hans til birtunnar. Á árum áður var eins og hann liti fyrst og fremst á landslagið sem misjafnlega áþreifanlegt og eftirgefanlegt efni, materia. Birtan mætti afgangi, ef svo má segja; hún var tæki til að hnykkja á þrívídd og efnisþáttum landslagsins.

Í dag er birtan, og þá á ég við einstök birtuskilyrði á Íslandi allt árið um kring, hrygglengjan í landslagsmálverkum Tolla. Fyrir tilstilli birtunnar er stundum eins og fjöllin í myndum Tolla leysist upp eða renni saman með dularfullum hætti, það kviknar í jöklunum, hafið molnar niður í marglit mynstur, mýrarfenin og svartur sandurinn og melarnir gera skyndilega uppskátt um fjölda smágerðra og litríkra plantna sem enginn hefði trúað að gætu þrifist á þessum óblíðu landsvæðum. Litskrúðið kemur óinnvígðum sjálfsagt í opna skjöldu, en sannleikurinn er sá að það er fyrir hendi á þessum slóðum, jafnvel þótt tekið sé tillit til skáldaleyfis málarans.

Þrátt fyrir litskrúð þessara mynda og ljóðrænan innileika þeirra, en hvorttveggja má að hluta til rekja til fullþroska og lífshamingju miðaldra listamanns, þá er langt því frá að Tolli horfi framhjá helstu eðlisþáttum íslenskrar náttúru. Í hans augum er hún ævinlega hættuleg, torfær og miskunnarlaus þeim sem ekki taka hana alvarlega. Í myndum hans gnæfa yfir okkur ókleyfir hamrar og í námunda við þá eru kannski hvítfyssandi jökulár sem enginn skyldi vaða, yfir hausamótum okkar eru dauðadökkir skýjabólstrar sem gera sig líklega til að gegnumvæta allar flíkur og bæta svo um betur með ískaldri slyddu. Loks eru það endalausar skrunurnar sem liggja niður eftir fjöllum og örþreyta hvern þann sem leggur til atlögu við þær. Þessar skrunur eru orðnar eins konar leiðarstef í landslagsmálverkum Tolla og er það vel við hæfi.

Þessi verk Tolla eru mannlaus, en þau innihalda margar tilvísanir í þær kynslóðir Íslendinga sem farið hafa hallloka fyrir þeirri óblíðu náttúru sem hér hefur verið lýst, í húsarústir sem eitt sinn voru reisuleg hús og litla fjölskyldugrafreiti lengst úti við endimörk hins byggilega heims.

Aðalsteinn Ingólfsson skrifar um Tolla

Haukur Dór er fæddur í Reykjavík 1940 og nam við Edinburgh College of Art og Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Síðar stundaði hann nám við Visual Art Center í Maryland, USA. Hann hélt fyrstu einkasýningu sína á myndlist 1962 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum myndlistarmanna og leirlistamanna víða um lönd. Haukur Dór hefur unnið að leirlist og myndlist á Íslandi, í Danmörku, Spáni og Bandaríkjunum. Í dag helgar hann sig málaralistinni alfarið. Verk Hauks Dórs er að finna í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og Hönnunarsafni Íslands og að auki í nokkrum öðrum listastofnunum og einkasöfnum.

„ Í málaralistinni á sér stað eilíf hringrás, þar sem sömu markmiðin verða ofan á með reglulegu millibili. Tvenn markmið eru þar lífseigust. Annars vegar eru þeir listamenn sem leita jafnvægis, samræmis og einfaldleika, hins vegar þeir sem vilja gera málverk sín að opnum vettvangi fyrir allar kenndir sem bærast þeim í brjósti.
Meðal þeirra síðarnefndu er tvímælalaust Haukur Dór, leirlistamaður, listateiknari og listmálari. Af fádæma harðfylgi hefur hann í áraraðir stundað málaralist sín, þrátt fyrir ágjafir og tímabundnar vinsældir nýrra listgreina.
Að stofni er myndlist Hauks Dór angi á miði þeirrar expressjónísku myndlistar sem er ein af meginstraumum myndlistar á 20stu öld, til komin fyrir brýna þörf. Í tímans rás tekur þessi myndlist svo inn á sig frumstæða kynngi afrískrar listar, ímyndanirnar sem súrrealisminn leysti úr læðingi og tilvistarlegar ígrundanir eftirstríðsmyndlistarinnar í Bandaríkjunum. Nánustu listrænu bandamenn Hauks Dór í tíma eru sennilega COBRA-mennirnir dönsku og hollensku, sem vildu endurvekja hið ævintýralega í myndlistinni.
Haukur Dór gerir eingöngu átakamyndir, ýmist harmrænar eða gáskafullar, þar sem takast á fulltrúar mannlegra ástríðna, vættir úr goðsögum og landslagi, að ógleymdum óvættum sem minna okkur á myrk öfl tilverunnar. Málverk hans eru drifin áfram af brýnni þörf sem lætur engan ósnortinn. ”

Aðalsteinn Ingólfsson

Pétur Gautur Svavarsson nam listasögu við Háskóla Íslands og lærði málaralist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hjá Sigurði Örlygssyni, Birni Birni, Hafsteini Austmann og Kristjáni Davíðssyni svo nokkrir kennarar séu nefndir. Eftir það settist hann á skólabekk í Statens Teaterskole í Kaupmannahöfn og nam leikmyndahönnun.

Davíð hefur mestmegnis unnið við málverk síðan hann útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og spreyjað með mismunandi málningu á fundna hluti. Fyrri verk Davíðs Arnar hafa oft samanstaðið af máluðum innsetningum, máluðum fundnum húsgögnum, gólfum, loftum og veggjum.

Verk Davíðs Arnar byggjast yfirleitt á atburðum úr hversdagslífinu. Þau eru persónuleg úrvinnsla úr umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar með beinum og óbeinum hætti í listasöguna. Bakgrunnur Davíðs Arnar í grafík er einnig sjáanlegur í verkum hans sem efnislegur grunnur sem hann byggir list sína á.

Davíð Örn hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og víða erlendis. Hann árið 2013 hlaut hann hin virta Carnegie Art Award styrk í flokki ungra listamanna.

Þórunn Bára beinir athyglinni að náttúrunni með áherslu á landnám lífs í Surtsey.
Hún nýtir myndmálið til þess að suðla að skilningi á þróun lífs,  og málar lífheiminn eins og hún skynjar hann og smáatriðin í náttúrunni eru að hennar mati óþrjótandi uppspretta fegurðar.
Þórunn starfar að list sinni á Íslandi og í Bretlandi

Ásgrímur Jónsson (1876 – 1958) er einn brautryðjenda íslenskrar myndlistar og varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi.

Ásgrímur fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann 1900 – 1903.

Ásgrímur dvaldist ytra til ársins 1909, en síðasta árið hafði hann vetursetu á Ítalíu. Á leið sinni til og frá Ítalíu kom hann við í Berlín og Weimar í Þýskalandi og sá m.a. verk frönsku impressjónistanna sem höfðu djúp áhrif á hann.  Íslensk náttúra var frá upphafi aðalviðfangsefni Ásgríms og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann trúr, þótt áherslur og vinnuaðferðir breyttust á hartnær 60 ára listamannsferli. Ásgrímur vann enn fremur brautryðjandastarf við myndskreytingar íslenskra þjóðsagna og ævintýra og er einn mikilvirkasti þjóðsagnateiknari Íslendinga.   Ásgrímur málaði í náttúrunni og lagði sig sérstaklega eftir að túlka birtu landsins. Hann málaði jöfnum höndum með vatnslitum og olíulitum og skipar sérstakan sess í íslenskri myndlist sem vatnslitamálari. Framan af var hann natúralismanum trúr, en laust fyrir 1930 fór áhrifa impressjónismans að gæta í verkum hans. Eftir 1940 urðu vinnubrögðin sjálfsprottnari en áður og verkin einkenndust af litsterkum expressjónisma.

Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll listaverk sín í eigin eigu ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Árið 1960 var Ásgrímssafn opnað í húsi hans. Árið 1988, þegar Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði, var safn Ásgríms sameinað Listasafninu samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá hans. Er það nú sérstök deild í Listasafni Íslands. Heimili Ásgríms að Bergstaðastræti 74 er nú lokað almenningi um óákveðinn tíma. (landofsaga.is)

Bragi Ásgeirsson (fæddur 1931) er grafíklistamaður, listmálari og myndlistakennari. Þar að auki var hann um árabil gagnrýnandi á Morgunblaðinu. Bragi fékk riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“

Bragi nam við Handíða- og myndlistarskólann á árunum 1947 til 1950. Að náminu loknu hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Listaháskólinn í Kaupmannahöfn frá 1950 til 1952 og frá 1955 til 1956. Frá 1952 til 1953 stundaði Bragi nám við Listaháskólann í Osló í Noregi og við Listiðnaðarskólinn. Hann dvaldi í Róm og Flórens frá 1953 til 1954 og var meðlimur í Associazione Artistica Internazionale í Róm. Bragi nam við Listaháskólann í München í Þýskalandi frá 1958 til 1960. Hann hefur farið í námsferðir víða í Evrópu, til Bandaríkjanna, Kananda, Kína og Japans.

Bragi kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1956 til 1996. Upphaflega kenndi hann grafík og var að því leyti brautryðjandi á Íslandi. Hann var listrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið frá 1966. Bagi hefur hlotið dvalar- og námsstyrki frá öllum Norðurlöndunum, m.a. Edvard Munch styrkinn árið 1977. Hann var styrkþegi DAAD Sambandslýðveldisins í Vestur-Þýskalands frá 1958 til 1960. Bragi hlaut starfstyrk íslenska ríkisins 1978-1979 og var borgalistamaður Reykjavíkur 1981-1988. Hann hlaut medalíu Eystrasaltsvikunnar/Pablo Neruda friðarpeninginn á tvíæringnum í Rostock 1978. Bragi hefur verið heiðursfélagi í félaginu Íslenzk grafík frá 1983.

Fyrsta einkasýning Braga var í Listamannaskálanum við Kirkjustræti árið 1955. Hann sýndi þar einnig árin 1960 og 1966. Bragi hefur gert veggskreytingar í Hrafnistu og Þelamerkurskóla og myndlýst kvæðið Áfangar eftir Jón Helgason. Hann hefur haldið fimm einkasýningar í Norræna húsinu og fjölda minni sýninga í Reykjavík og úti á landi. Hann hélt einkasýningu í Kaupmannahöfn árið 1956. Bragi hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og um öll Norðurlönd og víðs vegar annars staðar í Evrópu, í tíu fylkjum Bandaríkjanna, í Rússlandi, Japan og Kína. Hann tók þrisvar þátt í tvíæringnum í Rostock og einu sinni Evróputvíæringnum (1988). Hann hélt sýningu á 366 myndverkum, Heimur augans, í öllum sölum Kjarvalsstaða 1980.

Bragi sat í sýningarnefnd Félags íslenzkra myndlistarmanna frá 1969 til 1972 og var formaður hennar í tvö ár, frá 1971 til 1973. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd varðandi Biennalinn í Rostock frá 1967 til 1981 og var heiðursgestur 1981. Honum var veitt heiðursskjal fyrir grafík í Kraká í Póllandi árið 1968. Hann hlaut bjartsýnisverðlaun Brøste árið 1982.

Myndir eftir Braga eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns ASÍ, Listasafns Kópavogs, Listasafns Borgarness, Listasafns Selfoss, Listasafns Siglufjarðar, Listasafns Colby College í Maine og Norður-Þýska listasafnins, Listasafns Rostock, Listasafns Alþingis, og eru í eigu margra banka, opinberra stofnanna og einkasafna á Íslandi og víðar.

Heimasíða Braga

Jón Engilberts (1908-1972) var fæddur í Reykjavík árið 1908. Hann gekk í einkaskóla Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) í Reykjavík 1921-22 og stundaði nám við Samvinnuskólann 1925-26. Jón fór til Kaupmannahafnar árið 1927 og stundaði teikninám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn. Þaðan fór hann í Konunglega listakademíið frá 1928-1931 og fór svo til Óslóar, í Statens Kunstakademi  frá 1931-33 og var þar undir handleiðslu Axel Revold. Hann bjó í Reykjavík 1933-1934 og fluttist aftur til Kaupmannahafnar þar sem hann bjó árin 1934-1940, er hann fluttist alkominn heim til Íslands. Á árunum 1934-40 tók hann virkan þátt í dönsku listalífi og var m.a. kjörinn félagi í sýningarhópnum Kammeraterne 1936 og í Grafisk Kunstnersamfund.
Jón Engilberts var einn þeirra listamanna sem telst til annarrar kynslóðar myndlistarmanna, og var í flokki þeirra sem sneru frá landslagsmálverkinu og hóf að fást við raunsæi og hversdagsleika svo sem sjá má í myndum hans af sjávarþorpum og íbúum þeirra. Elstu verk hans bera með sér áhrif frá þýska expressjónismanum. Eftir að Jón sneri alkominn til Íslands árið 1940, varð hann mikilvægur í íslenska myndlistarsamfélaginu, en hann kenndi mikið og var brautryðjandi í grafíklist hérlendis og vann mikið við myndskreytingar. Hann vann einnig að réttindamálum myndlistarmanna. Árið 1965 hóf hann að mála stórar myndir með þykkum olíulögum í abstrakt expressjónískum stíl, þar sem fléttaðist saman íslensk náttúra og goðafræði. Jón lést í Reykjavík árið 1972.

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist á Efti-Ey í Meðallandi árið 1885. Hann hélt til náms til Kaupmannahafnar árið 1912 og stundaði nám við Konunglega listaskólann til ársins 1918 er hann hélt aftur heim til Íslands. Hann dvaldi einnig í London og á Ítalíu.

Kjarval mótað sér afar persónulegan stíl í myndverkum sínum og málaði landslagsmyndir á sérstakan hátt, af hrauni og er oft sagt að hann hafi kennt Íslendingum að horfa á og meta landið sitt. Hann ferðaðist um landið og málaði og dvaldi þá oft austur á Héraði en hann var alinn upp í Borgarfirði eystri. Hann málaði einnig margar myndir frá Þingvöllum.

Kjarval var mjög afkastamikill listamaður og eftir hann liggur fjöldi olíumálverka og teikninga, m.a. myndir af fólki gerðar með tússi, blýanti og krít.

Hann var mjög sérstæður maður svo að þjóðsögur mynduðust um hann í lifanda lífi. Kjarvalsstaðir í Reykjavík eru kenndir við þennan mikla listamann og er þar geymt mikið safn mynda eftir hann.

Kjarval lést árið 1972.

Jón Stefánsson (1881-1962) var einn af frumherjunum í íslenskri myndlist. Hann málaði landslagsmyndir, portrett – eða myndir af fólki – og uppstillingar.

Hann hugsaði aldrei um það þegar hann var að alast upp á Sauðárkróki að það gæti verið gaman að verða listmálari. Hann teiknaði að vísu dálítið þegar hann var krakki og unglingur en það var eins og hvert annað föndur. Svo sagði hann að minnsta kosti sjálfur.

Jón fór til Kaupmannahafnar aldamótaárið 1900 til að læra mannvirkjafræði því að hann langaði til að teikna brýr yfir straumþungar ár og móta bryggjur og fleira af því tagi. Mamma hans sagði honum áður en hann fór að það gæti komið sér vel í slíku starfi að læra líka að teikna. Og hann fór að ráðum hennar.

Jón fékk tilsögn í teikningu og sótti líka söfn í stórborginni. Þannig kynntist hann verkum meistara myndlistarinnar. Eftir þriggja ára nám sagði hann svo skilið við mannvirkjafræðina og fór að læra að mála. Hann var fyrst í listaskóla í Kaupmannahöfn og síðar í París.

Þegar hann málaði mynd af landslagi reyndi hann ekki að líkja nákvæmlega eftir því sem hann sá. Hann leitaðist við að sýna þau áhrif sem landslagið hafði á hann. Hann lét smáatriði eiga sig en dró fram það sem honum þótti skipta mestu máli. Hann tengdi saman formin í náttúrunni svo þau mynduðu eina heild og tefldi saman andstæðum, notaði ljósa og dökka litfleti, heita og kalda.

Jón var svo vandvirkur og gerði svo miklar kröfur til sín að hann lét aldrei fara frá sér mynd nema hann væri alveg ánægður með hana. Þess vegna eru fyrstu myndirnar sem hann málaði ekki til. Honum fannst hann geta gert svo miklu betur að hann eyðilagði þær.

Hann bjó mikinn hluta ævinnar erlendis en þótti alltaf gott að koma til Íslands. Honum þótti birtan hér heima alveg einstök.

“Á sumrin er bjartara á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar,” sagði hann, “og þegar maður kemur heim á vorin liggur við að maður fái ofbirtu í augun. En það er einmitt þessi mikla birta sem gerir landið svo dýrlegt”.(landogsaga.is)

Þorvaldur Skúlason (30. apríl 1906 – 30. ágúst 1984) var íslenskur listmálari sem var einn af frumkvöðlum abstraktlistar á Íslandi og undir áhrifum frá franska kúbismanum sem hann kynntist í Frakklandi á 4. áratugnum.  Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns Háskóla Íslands sem stofnað var 1980 með listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, en verk eftir Þorvald voru uppistaða í safni þeirra (117 af 140 verkum).

Þorvaldur fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð á Ströndum, sonur faktorsins í Riisversluninni, Skúla Jónssonar, og Elínar Theodórsdóttur.  Þegar hann var þriggja ára fluttist fjölskyldan til Blönduóss þar sem hann ólst upp.  Fjórtán ára varð hann messadrengur á farþegaskipinu MS Gullfossi, en ári síðar fótbrotnaði hann og stytti sér stundir með teikningum.  Haustið 1921 fór hann til Reykjavíkur og fékk tilsögn hjá Ásgrími Jónssyni.1927 sýndi hann verk sín á 7. almennu listasýningu Listvinafélags Reykjavíkur og 16. febrúar 1928 hélt hann sína fyrstu einkasýningu.  Þetta sama ár fór hann í nám við listaháskólann í Osló.  1931 flutti hann til Parísar og til Kaupmannahafnar 1933 og enn til Frakklands 1934. 1940 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Íslands vegna innrásar Þjóðverja.  Eftir komuna til Íslands bjó hann mestmegnis í Reykjavík og tók virkan þátt í sýningum Félags íslenskra myndlistarmanna og sýningum Septem-hópsins meðal annars.

Kristján Davíðsson fæddist í Reykjavík árið 1917 en er alinn upp á Patreksfirði.

Hann sótti kvöldnámskeið í myndlist hluta úr vetri hjá Finni Jónssyni 1932 og sér um það leiti myndir eftir þýska expressionista s.s. Kokoschka og Karl Hofer í þýsku myndablaði. Hann stundar myndlistanám við einkaskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar á árunum 1935 – 36 og flyst til Reykjavíkur árið 1939.

Kristján var við myndlistanám íBarnes Foundation í Merion, Filadelfíu og University of Pennsylvania og fór oft til New York þar sem hann sá myndir eftir marga helstu samtímamálara í Guggenheim safninu.

Kristján er einn af brautryðjendunum sem stóðu fyrir Septembersýningunum á árunum 1947 – 52. Hann varð einn af þeim fyrstu til að komast í sýnikennslu til margra helstu meistara nútíma myndlistar og draga af þeirri reynslu rökréttar ályktanir.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) listmálari og rithöfundur, Nína var fædd 16. mars 1913 á Seyðisfirði.  Nína var þekkt fyrir myndlist sína en gaf einnig út nokkrar barnabækur. Hún var löngum búsett erlendis, m.a. í Kaupmannahöfn, París, London og New York þar sem hún bjó síðustu árin. Á árunum 1940-1943 dvaldist Nína í Reykjavík og kynntist þá mörgum listamönnum í Unuhúsi, m.a. Louisu Matthíasdóttur sem einnig var samtíða henni í listnámi í Bandaríkjunum 1943-1946

Jóhannes Jóhannesson (1921-1998) var einn af stofnendum Septem-hópsins og þróaðist list hans frá hlutbundnum verkum til strangflatarlegrar afstraksjónar.  Í upphafi sjöunda áratugarins urðu myndir hans ljóðrænni og hring- og skeifulaga form æ meira áberandi á myndfletinum.t

Svavar Guðnason fæddist í Hornafirði árið 1909 og fór til Kaupmannahafhar 1935. í Danmörku var Svavar m.a. viðriðinn útgáfu tímaritsins „Helhesten” og tók þátt í „haustsýningum” danskra listamanna, en hópurinn sem stóð að þeim sýningum, myndaði síðan hinn sk. „Cobra-hóp”. í honum voru m.a. listamennirnir Ejler Bille, Egill Jacobssen og Asger Jorn.  Svavar hélt alfarið heim til íslands 1951, en 1945 hafði hann sett upp sýningu á verkum sínum í Reykjavík, sem Ólafur Kvaran listfræðingur sagði að hefði markað upphaf „abstrakt”-listar á íslandi.

Gunnlaugur Óskar Scheving (8. júní 1904 – 9. september 1972) var íslenskur myndlistarmaður og einn þekktasti listmálari Íslendinga á 20. öld. Gunnlaugur stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur ólst upp á Seyðisfirði. Úrsmiðurinn þar átti ensk littímarit með myndum, hann kenndi Gunnlaugi ensku og dáðist Gunnlaugur mjög að myndunum. Foreldrar Gunnlaugs sendu hann 5 ára gamlan í fóstur á Unaósi og síðar Seyðisfirði. Sextán ára sneri hann aftur til Reykjavíkur til að vinna á Morgunblaðinu hjá frænda sínum, ritstjóranum og skáldinu Þorsteini Gíslasyni. Gunnlaugur lærði teikningu hjá Einari Jónssyni og er meðal fyrstu nemenda Muggs í skólanum við Hellusund. Árið 1923 fór hann til Kaupmannahafnar, reyndar með viðkomu í Eyjum, Austfjörðum, Leith (við Edinborgh) og Osló. Hann nam við listaakademíuna þar en á meðan hann bjó sig undir inngöngu bjó hann í húsnæði Nínu Sæmundsson sem þá var á Ítalíu. Hann fékk enga sumarvinnu í Danmörku og vann því við kolauppskipun heima. Eftir sumarið hafði hann ekki efni á að snúa aftur og þar sem hann fær engan styrk hann er heima til 1925. Hann var í Akademíinu til 1930. Verk hans, Bassabáturinn, var í öndvegi Landakotssýningarinnar 1930. Hún er máluð miðað við gullinsnið. Gunnlaugur málaði um tíma á Þingvöllum með Jóni Engilberts og Eggert Guðmundssyni. Hann flutti eftir það á Seyðisfjörð en hélt sýningar í Reykjavík. Á þessum tíma var dyggasti stuðningsmaður Gunnlaugs járnsmiðurinn Markús Ívarsson sem lét listaverkakaup framar öðrum þörfum sínum. Gunnlaugur giftist Grete Linck, samnemanda úr listnámi í Kaupmannahöfn og héldu þau sýningar saman. Gunnlaugur dvaldi hjá Sigvalda Kaldalóns í Grindavík um 1940 og málaði þá margar sjávarmynda sinna. Hann bjó einnig hjá Ragnari Ásgeirssyni ráðunauti við Laugarvatn. Hann gerði myndir um Landnámið fyrir lýðveldishátíðina úr lituðum pappír. Þær myndir sýna m.a. Hrafna-Flóka, Ingólf og Hjörleif og öndvegissúlurnar. Auk þess að myndskreyta Njálu myndskreytti hann Gretlu og var fyrirmynd hans norsk skreyting Heimskringlu.

Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, I (1964) eftir Björn Th. Björnsson

Louisa fæddist í Reykjavík. Hún sýndi listræna hæfileika á unga aldri og lærði fyrst í Danmörku. Þangað flutti hún 17 ára gömul og síðar undir Marcel Gromaire í París. Fyrstu málverk hennar, frá lok 4. áratugar 20. aldar, festu hana í sessi sem leiðandi persónu í íslenska framúrstefnusamfélaginu (þar sem margir meðlimir hittust í Unuhúsi). Viðfangsefni málverkanna var málað með breiðum pensli, til þess að leggja áherslu á rúmfræðilegt form. Þessi málverk sýndu mikið af því eðli sem einkenndi þroskuð verk Louisu en þó með minni lit.
Hún fluttist til New York árið 1942 og því fylgdi tímabil þar sem hún lærði undir Hans Hofmann auk annarra listmálara, til að mynda Robert De Niro, Sr. (föður leikarans) og Jane Freilicher. Árið 1944 giftist hún listmálaranum Leland Bell og nutu þau samstarfs sem einkenndist af gagnkvæmum stuðning þar til Bell lést árið 1991. Fyrsta einkasýning Louisu átti sér stað í Jane Street Gallery í New York árið 1948. Vinna hennar á 6. áratugnum einkenndist af expressjónisma en frá 7. áratugnum til loka ævi hennar þróaði hún og bætti áberandi hreina liti, skipulagða samsetningu og mikla framkvæmd sem hún er þekktust fyrir.

Málverk síðustu þriggja áratuga Louisu innihalda til að mynda íslenskt landslag, sjálfsmyndir og uppstillingum. Landslagsmyndir hennar innihalda oft heillandi stílfærðar útgáfur af íslenskum hestum og kindum. Hún var íslenskur ríkisborgari allt sitt líf, sjónræn einkenni landsins styrkja djarfa meðferð hennar á formi og skýrleika í ljósi. Skáldið John Ashbery lísti niðurstöðunni sem „bragð, bæði milt og beiskt, sem enginn annar listmálari gefur okkur.“

Árið 1996 hlaut Louisa menningarverðlaun American-Scandinavian Foundation og árið 1998 varð hún meðlimur í American Academy of Arts and Letters. Hún lést í Delhi, New York árið 2000, þá 83 ára að aldri. Verk hennar eru sýnd í mörgum einkasöfnum, þar á meðal í Hirshhorn Museum and Sculpture Garden í Washington, D.C. og Listasafni Reykjavíkur.

Wikipedia

Guðmunda lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1941 og kennaraprófi frá Konstfackskolan í Stokkhólmi 1946. Hún stundaði nám við málaraskóla Otte Skjöld í Stokkhólmi 1945-46, Listaháskólann í Stokkhólmi 1946-48, L’Académie de la Grande Chaumière í París 1951 og við L’Académie Ranson í París 1951-53.

Guðmunda er einn helsti fulltrúi íslenskrar abstraktlistar. Hún hélt nokkrar einkasýningar og tók þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi og erlendis. Guðmunda var um árabil einn félaga í Septem-hópnum, sem var helsti vettvangur íslenskra abstraktmálara um árabil. Árið 1990 var yfirlitssýning á verkum hennar á Kjarvalsstöðum. Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn ASÍ, Listasafn Kópavogs og Colby Art Museum í Maine í Bandaríkjunum eiga öll verk eftir Guðmundu, auk þess sem einkasafnarar víða um heim eiga verk eftir hana. Árið 1952 fékk Guðmunda franskan myndlistarstyrk og 1971 hlaut hún tólf mánaða starfslaun ríkisins og var valin borgarlistamaður Reykjavíkurborgar árið 1995.

Karl Kvaran (1924-1989)  fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1924. Hann nam myndlist í einkaskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar 1939-1940 og við einkaskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar 1941-1942. Frá 1942-1945 lærði hann við Handíðaskólann í Reykjavík og fór svo til Danmerkur og var við nám við Konunglega listakademíið í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Rostrup Bøyesen árin 1945-1948. Í verkum Karls frá 1942-1952 gætir mikilla áhrifa frá málverki síðkúbismans, þar sem ströng formræn uppbygging og þykkt olíunnar skapa efnisþung málverk. Það var um það bil árið 1951 sem Karl snerist frá hlutbundinni listsköpun til óhlutbundins myndmáls, geómetrískrar abstraktsjónar og er hann einn helsti fulltrúi strangflatarmálverksins í íslenskri myndlist og hélt lengst allra málara sinnar kynslóðar tryggð við það tjáningarform. Öll dýpt og fjarvídd myndarinnar var útilokuð og tvívíður myndflöturinn undirstrikaður með notkun á einföldum formum og litum.

Frá 1958 til 1970 vann Karl mest að stórum gvass- og olíumyndum ásamt blekteikningum. Meiri mýkt tók að þróast í meðförum hans við formið og í stað beinna lína fór áherslan í átt til meiri hrynjandi, einkum í bogadregnum línum og hringformum og samspili þeirra. Eftir 1970 jók Karl stærðir olíumynda sinna og stöðugum formum var skipt út fyrir hreyfingu formsins.  Litanotkun jókst, hann fór að nota hreinar kröftugar litasamsetningar, tilbreytingar við rauðan lit, gulan og bláan urðu allsráðandi ásamt svörtum og hvítum. Þessi þróun náði hámarki í kringum 1979 þegar myndirnar urðu stórar, hreinar í formi, litmiklar og víðáttumiklar innan myndflatarins. Karl Kvaran lést í Reykjavík árið 1989.